Maraþon á ís!

Frozen Lake Marathon - Icebug
Soffía Arnþrúður að hlaupa í Frozen Lake Marathon

Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir tók þátt í fyrsta Frozen Lake Marathon, sem fram fór 16. mars sl. en hlaupið fer alfarið fram á ísilögðu vatni. Fimbul.is setti sig í samband við Soffíu og bað hana að segja stuttlega frá sinni upplifun.


Klukkan 10 á föstudagsmorgni 15.mars hóf ég sjö tíma rútuferðalag frá Gautaborg. Áfangastaðurinn var Noregur þar sem ætlunin var að hlaupa hálfmaraþon á ís í Tisleifjorden daginn eftir.
Fyrsta maraþon sem haldið er á ís í heiminum!

Frozen Lake Marathon fer einungis fram á ísilögðu vatni!

Ég ferðaðist með hóp átta kvenna sem er hluti af hlaupahópnum Forest Femmes. Forest Femmes er hlaupahópur sem stofnaður var í Gautaborg fyrir þremur árum og hefur hópurinn stækkað gríðarlega síðan þá. Núna má finna Forest Femmes í fimm borgum Svíþjóðar og í Munich í Þýskalandi. Hugmyndafræði hópsins er eftirfarandi:

  • Koma saman, njóta og hafa gaman. Engin áhersla á hraða né árangur.
  • Hlaupa utandyra í skóginum í alls kyns veðráttu, allt árið um kring.
  • Hvetja konur á öllu aldri og í alls kyns formi að hlaupa í skóginum og upplifa náttúruna saman. “Alvöru” hlaupari er sá sem hleypur, hver sem hraðinn er.
  • “Safety” er eitt af slagorðum hópsins. Hér hleypur hver kona örugg að kvöldi til í miðjum skógi með þéttan hóp á bak við sig ásamt reynslumiklum leiðbeinendum.

Eftirvæntingin í hópnum var mikil þar sem engin hafði hlaupið hálf maraþon á ís áður. Við vorum þó allar sammála um að þetta ætti eftir að verða eftirminnileg reynsla.

Icebug Frozen Lake
Maraþon á ís
Hópurinn tilbúinn í átök.

Við komum okkur fyrir í sumarbústað eða “hytte” í fjöllum Noregs þar sem kynnt var upp með arineldi og eldaður var góður matur.
Á föstudagskvöldi fengum við óvænta gjöf frá Icebug, glænýja hlaupskó sem eru sérhannaðir fyrir vetrar – og utanvegahlaup. Þetta er nauðsynlegur skóbúnaður þegar hlaupið er við erfiðar aðstæður ýmist í skógum Svíþjóðar, íshlaupi í Noregi eða fjallahlaupi á Íslandi.

Hlaupið fór af stað klukkan 11 á laugardagsmorgni. Braut hafði verið lögð á þykkan ísinn (um 80 cm) nokkrum dögum áður. Milt var í veðri; logn, 3 gráður og heiðskýrt. Kjöraðstæður fyrir langt og strembið hlaup.

Hlaupið gekk vel af minni hálfu. Brautin reyndist ekki eins hál og ég hafði búist við en þunnt snjólag lá þó yfir mest allri brautinni.
Það sem reyndist mér þó mest krefjandi var að halda réttum meðalhraða og takti um slétta og hlykkjótta brautina.
Veðrið, sólin og útsýnið var einstakt. Þetta er tvímælalaust hlaup sem ég mæli með fyrir allt ævintýra – og hlaupaáhugafólk!

Soffía hljóp á tímanum 1:53:16 og endaði í 11. sæti í kvennaflokki.


Veðrið, sólin og útsýnið var einstakt. Þetta er tvímælalaust hlaup sem ég mæli með fyrir allt ævintýra – og hlaupaáhugafólk!


Soffía Arnþrúður hljóp í glænýjum Icebug skóm og klæddist GORE WINDSTOPPER® hlaupabuxum frá GORE WEAR.

Myndband frá hlaupinu í ár